Heildargreiðslur til heimila með verðtryggð lán nema hingað til 82,4 milljörðum króna. Þar er átt við sérstakar greiðslur til heimilanna, annars vegar að frumkvæði stjórnvalda og hins vegar að frumkvæði fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í viðauka í skýrslu sem nefnd um skuldaniðurfellingar vann fyrir ríkisstjórnina. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson kynntu skýrsluna í Hörpu á laugardaginn ásamt Sigurði Hannessyni, formanni nefndarinnar. Inni í fyrrgreindum tölum eru ekki aðgerðir vegna gengisdóma.

Rétt rúmlega 7,6 milljarðar hafa verið greiddir vegna greiðslujöfnunar einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði. Liðlega 7,3 milljarðar hafa verið greiddir vegna sértækrar skuldaaðlögunar, 46 milljarðar hafa verið greiddir vegna 110% leiðarinnar, 9,2 milljarðar verið greiddir í vaxtabætur og 12,3 milljarðar í sérstaka vaxtaniðurgreiðslur.

Þau úrræði sem voru kynnt á laugardaginn eru þannig að skuldir heimila, að heildarupphæð 80 milljarðar króna, verða felldar niður. Að auki mun fólk fá skattaívilnanir til þess að nýta persónuafslátt í að greiða niður lán sín. Það er úrræði er metið á 70 milljarða króna.