Heimili og skóli - landsamtök foreldra hafa fengið fjölmörg erindi frá fólki sem á í erfiðleikum með að fjármagna margvíslegan kostnað vegna skólagöngu barna sinna. Margir foreldrar eru þó ekki meðvitaðir um lagalegan rétt sinn varðandi þátttöku ríkis og sveitarfélaga í kostnaði vegna skólagöngu barna. Samkvæmt nýjum grunnskólalögum er skólum skylt að leggja til öll námsgögn og annað efni utan persónuleg gögn á borð við ritföng og pappír.   Björk Einisdóttir framkvæmdastjóri samtakanna segir ástandið ekki nógu gott. Auk verulega aukins kostnaðar við ritföng og annað sé víða verið að hækka gjöld vegna gæslu um 10%.   „Máltíðir hafa sumstaðar hækkað líka. Við vorum að senda út könnun um allt land til að taka stöðuna á hvernig þróunin er.   Varðandi skólagögn er gífurlegur verðmunur og þetta er orðið mjög dýrt fyrir barnmargar fjölskyldur að kosta börn sín í nám.”   Björk segir að þar sem skólarnir sjálfir hafa keypt inn bækur fyrir allan nemendahópinn hafi oft verið hægt að lækka kostnað nemenda verulega. Þar hafi bókapakkinn farið niður í kannski 3.500 krónur á meðan hann er mörgum þúsundum króna hærri ef fólk þurfi að kaupa bækurnar sjálft úti í búð. Dæmi um slíkt er t.d. í Austurbæjarskóla, Mýrarhúsaskóla, Foldaskóla og víðar. Ek bóka og ritfanga kostar skólataskan oft mikla peninga sem og fatnaður. Segir Björk að vegna þessa þá hafi talsvert borið á umræðu um skólabúninga en þar séu líka skiptar skoðanir. Skólabúningur geti t.d. kostað um10 þúsund krónur og ekki sé þá sjálfgefið að börnin vilji nota hann, enda lítil hefð fyrir slíku. Lagaskylda og réttur foreldra Lagaskylda foreldra varðandi kostnaðarþátttöku við skólagöngu barna sinna hefur oft ekki verið öllum ljós. Í ágúst 1990 gaf umboðsmaður Alþingis álit vegna kvörtunar foreldris um innheimtu efnisgjalda í skólum. Var þar vísað til 7. gr. laga nr. 45/1979 um Námsgagnastofnun. Í álitinu kom fram að lög hefðu verið brotin í því tilfelli, en bæta þyrfti lög og reglugerðir þar að lútandi. Þar sagði m.a. eftirfarandi: „Að því er varðar innheimtu svonefnds efnisgjalds í grunnskólum, þ.e.a.s. gjalds til innkaupa í þágu nemenda, s.s. á stílabókum og/eða til greiðslu pappírskostnaðar vegna ljósritunar í skólum, þá taldi umboðsmaður, að samkvæmt lögum félli kostnaður þessi undir þann hluta skólakostnaðar, sem sveitarfélögum bæri að greiða, og því færi innheimta slíks gjalds hjá nemendum að öllu eða að hluta til í bága við lagareglur um greiðslu skólakostnaðar grunnskóla. Hins vegar bannaði skólalöggjöfin ekki, að skólar útveguðu námsgögn og afhentu þeim, sem það vildu, gegn gjaldi, enda væri um að ræða námsgögn umfram það, sem skylt væri að nota.” Nýleg grunnskólalög Í nýjum endurbættum lögum um grunnskóla sem tóku gildi í júní 2008 er í 31. gr. hnykkt á vafaatriðum og kostnaði í skyldunámi. Greinin er svohljóðandi: 31. gr. Kostnaður í skyldunámi. Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum, enda sé námið skilgreint sem hluti náms í grunnskóla. Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. Nú stundar grunnskólanemandi nám í framhaldsskóla sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, og fer þá um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Sveitarfélög greiða þá kostnað vegna námsgagna og innritunar og eftir atvikum efnisgjald. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla. Menntamálaráðuneyti er skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra. Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Björk Einisdóttir segir mjög misjafnt eftir sveitarfélögum hver kostnaður foreldra er af námi barna sinna. Það varði t.d. kostnað við gæslu barna eftir skólatíma, skólamáltíðir og annað.   Til að koma til móts við foreldar vegna erfiðs ástands í þjóðfélaginu hafa ýmis fyrirtæki lagt fram sinn stuðning. Þá hafa fjölmargir einstaklingar einnig styrkt fjölskyldur sem geta ekki staðið straum af námskostnaði barna sinna. Fjölskylduhjálpin hefur haft milligöngu um slíka aðstoð. Þá hefur Eymundsson afhenti Hjálparstarfi kirkjunnar Jeva-skólatöskur sem söfnuðust á skiptitöskumarkaði Eymundsson. Eymundsson gaf einnig nýjar skólavörur að andvirði 750.000 krónur til Hjálparstarfs kirkjunnar.