Norðurál keypti í fyrra 77% þeirrar orku sem virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur framleiddu. Fyrirtækið greiddi 4,9 milljarða króna, sem er 41% af tekjum Orkuveitunnar af raforkusölu.

Heimili og lítil fyrirtæki, sem eiga í viðskiptum við OR, stóðu því undir 59% af tekjunum þrátt fyrir að kaupa aðeins 23% orkunnar.

Gjaldskrá OR til þeirra hefur hækkað um 55% frá 2010 en samningar Norðuráls hafa verið óbreyttir um árabil og gilda til 2028 og 2035. Fyrirtækið borgar 15 til 16 dollara fyrir megavattstundina.

Álverið í Straumsvík greiðir tvöfalt meira

Samningar OR við Norðurál voru gerðir árin 2004 og 2007. Sá fyrri gildir til ársins 2026 til 2028 en sá seinni til ársins 2035. Samningarnir eru trúnaðarmál. Miðað við fjárhæðina sem þeir greiddu í fyrra og orkukaupin má gera ráð fyrir því að Norðurál sé að greiða um 15 til 16 dollara fyrir hverja megavattstund.

Heimildarmenn blaðsins telja reyndar að upphæðin kunni að vera lægri og jafnvel á bilinu 12 til 13 dollarar. Landsvirkjun selur um 80% sinnar orku til viðskiptavina í orkufrekum iðnaði. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 2015 var meðalverð 24,5 dollarar á megavattstund.

Lækkaði verðið um 1,4 dollara frá árinu 2014 og var það vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á áli. Eins og áður sagði var síðasti samningur OR við Norðurál gerður árið 2007.

Þremur árum seinna samdi Landsvirkjun við Rio Tinto Alcan í Straumsvík og samkvæmt þeim samningi greiðir álverið í Straumsvík á bilinu 30 til 35 dollara fyrir megavattstundina. Álverið í Straumsvík er því að greiða tvöfalt hærra verð, eða ríflega það, fyrir raforku en Norðurál.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .