Í desember síðastliðnum stækkuðu hlutabréfasjóðir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða um 4,2 milljarða króna. Stærð slíkra sjóða er því orðin um 35,6 milljarðar króna og nemur aukning á milli mánaða 13,3%. Þetta kemur fram í gögnum frá Seðlabankanum. „Aukningin er talsvert umfram þá hækkun sem var almennt á hlutabréfum í mánuðinum,“ segir greiningadeild Íslandsbanka um málið.

„Allt árið í fyrra hækkaði staða sjóðanna í hlutabréfum um 19,1 milljarð króna og var sú aukning að mestu í skráðum hlutabréfum.“ Gögn Seðlabanka sýna að innlán heimilanna hjá innlánsstofnunum lækkuðu um fimm milljarða króna í desember. „Er ljóst af þessum tölum að heimilin eru í auknum mæli að leita með sparifé sitt í skráð hlutabréf á ný eftir að sá hluti sparnaðar þeirra hvarf nánast í hruninu,“ segir í Morgunkornum.