*

mánudagur, 30. nóvember 2020
Innlent 5. október 2019 11:03

Heimilin flykkjast í óverðtryggð lán

Hlutfall verðtryggingar í nýjum húsnæðislánum heimilanna hefur dregist töluvert saman á síðustu misserum.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Hrein ný húsnæðislán innlánastofnana til heimilanna námu um 82,2 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins og drógust saman um 2,3 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabankinn birti í síðustu viku yfir hrein ný útlán bankakerfisins sem eru ný lán að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána. Töluverður munur er hins vegar á því hvort um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Ný hrein óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa hafa aukist umtalsvert á síðustu tveimur árum á meðan þau verðtryggðu hafa dregist nær samfellt saman.

Hrein ný óverðtryggð húsnæðislán námu 56,5 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins og jukust um 15,9 milljarða milli ára eða um 39%. Verðtryggðar nýjar lánveitingar námu hins vegar 25,6 milljörðum á tímabilinu og drógust saman um 18,2 milljarða króna sem gefur sterklega til kynna að fasteignakaupendur sækja frekar í óverðtryggð lán það sem af er ári. Á síðustu 12 mánuðunum námu nýjar hreinar lánveitingar til húsnæðiskaupa 132,6 milljörðum króna og jukust um 6,1 milljarð frá sama tímabili fyrir ári síðan. Af því voru 33,4 milljarðar verðtryggð lán sem drógust saman um 35,3 milljarða á meðan óverðtryggðu lánin námu 99,3 milljörðum og jukust um 41,4 milljarða.

Óvissan hafði áhrif 

Að mati sérfræðinga sem Viðskiptablaðið ræddi við hafði óvissa varðandi kjarasamninga og ótti við veikari krónu vegna WOW air töluverð áhrif á lántökur síðastliðið ár. „Það sem gerðist var að þegar óvissan fór að verða meiri í hagkerfinu fyrir um ári síðan vegna kjarasamninga og stöðu WOW air fór fólk að búast við að verðbólga yrði töluvert meiri en hún hefur verið. Við það sáu margir sér hag í að losa sig við verðtryggingu og skipta yfir í óverðtryggð lán með föstum vöxtum,“ segir Ari Skúlason, sérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans.

Þetta hafði áhrif á ný lán auk þess sem einhver hluta eldri lána var endurfjármagnaður í þetta form. Svo hefur komið í ljós að þróunin varð alls ekki á þessa leið þannig að núna eru margir með óverðtryggð lán á föstum vöxtum á sama tíma og vaxtastig er að lækka. Þannig sjá eflaust einhverjir sér hag í því að fara út í breytingar sem fælu í sér að fara í samskonar lán með lægri vöxtum, samskonar lán með óverðtryggðum vöxtum eða fara einfaldlega aftur í verðtryggð lán.“

Að mati Ara hefur aukin samkeppni á húsnæðislánamarkaði haft sitthvað með þróun síðustu missera að gera. „Þetta segir okkur líka að þessi markaður er orðinn mun kvikari. Fólk spáir í hvað sé að gerast og hver staðan sé og auk þess sem það á miklu meiri möguleika en áður til þess að breyta. Núna eru komnir margir aðilar og samkeppni inn á sviðið þannig að neytandinn er í miklu betri stöðu en áður til þess að ná sér í hagstæðari lausnir þegar aðstæður breytast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér