Hagstofan greinir frá því að samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung 2023 jókst landsframleiðsla að raungildi um 7% miðað við sama tímabil í fyrra. Neysla hefur einnig aukist til muna þrátt fyrir miklar verðhækkanir.

Útflutningur jókst um 10,8% og var sú hækkun að mestu leyti vegna vaxandi tekna af útfluttri þjónustu. Það voru einkum auknar útflutningstekjur í tengslum við ferðaþjónustu sem stóðu að baki þessari þróun. Í heild jókst þjónustuútflutningur um 24,7% en vöruútflutningur jókst um 1,1% miðað við sama tímabil í fyrra.

Vöruinnflutningur dróst aftur á móti saman um 0,2% en þjónustuinnflutningur jókst um 12,4%. Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var því áætlaður 24,2 milljarðar króna á tímabilinu.

Einkaneysla hefur einnig aukist um 4,9% frá sama tímabili síðasta árs og eru ferðatengdir liðir taldir standa að baki þeirri aukningu. Hagstofan segir að kröftug einkaneysla þrátt fyrir umtalsverðar verðhækkanir á neysluvörum gæti verið vísbending um að heimilin séu að ganga á sparnað til að ná endum saman.

Byggingarframkvæmdir vegna íbúðarhúsnæðis drógust hins vegar saman um 14,4% en eftir mikla aukningu á árunum 2016-2020 hefur dregið úr fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis. Framkvæmdastigið nú er þó enn yfir meðaltali frá því eftir fjármálahrun.

Áætlaður heildarfjöldi unninna stunda jókst um 5,6% á fyrsta ársfjórðungi 2023 og var mest fjölgun vinnustunda í byggingarstarfsemi og verslunar-, samgöngum og veitingargeiranum. Minnst fjölgun vinnustunda var hjá hinu opinbera.