Hlutafjárútboð N1 sýnir að áhugi almennings á hlutabréfamarkaðnum er að aukast, að sögn Magnúsar Harðarsonar, forstöðumanns viðskiptasviðs Kauphallarinnar. Hann bendir á það í samtali við Fréttablaðið að enn sé langt í land að heimilin nái aftur þeirri hlutdeild í hlutabréfamarkaðnum og sást fyrir hrun. Árið 2002 var bein eignaraðild íslenskra heimila á hlutabréfamarkaði um 17% og 11,5% fyrir hrun. Nú er hún á milli 5-6%.

„Við eigum enn svolítið í land ef við ætlum að ná hlutfallinu upp í það sem það var á árunum fyrir hrun og almenningur á töluvert inni,“ segir hann.

Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í N1 í almennu hlutafjárútboði sem lauk á mánudag. Áskriftir voru um 7.700 og af þeim tilheyrðu 7.200 þátttakendum sem lögðu fram tilboð undir tíu milljónum króna. Eftirspurnin var slík að hámarksúthlutun í síðarnefnda hópnum var 183 þúsund krónur á hverja áskrift.