Útlán bankakerfisins til innlendra aðila jukust um tæpa 100 milljarða á milli mánaða í ágúst sl. og voru samtals tæplega 4.100 milljarðar króna.

Á sama tíma í fyrra námu útlánin um 2.900 milljörðum og hafa því hækkað um 40% síðastliðna tólf mánuði.

Hlutur heimilanna er um fjórðungur af heildarskuldum bankakerfisins eða rúmir 1.000 milljarðar.

Skuldirnar hækkuðu um 38 milljarða milli mánaða, en samkvæmt útreikningum greiningardeildar Landsbankans nam mánaðarhækkunin 3% þegar tekið er tillit til verðbólgu og gengisbreytinga.

Í ágúst 2007 skulduðu heimilin bankakerfinu 780 milljarða og hafa skuldirnar því hækkað um tæp 28% síðastliðna tólf mánuði en verðbólga var 14,5% á sama tíma.

Gengisbundin útlán til heimilanna voru um fjórðungur af heildarskuldunum eða 237 milljarðar. Að viðbættum yfirdrætti í erlendri mynt og eignaleigusamningum voru gengistengdar skuldir nálægt 250 milljörðum.