Greiningardeild Arion banka segir að það megi áætla að heimilin hafi sparað tæpa sjö milljarða á lækkun olíuverðs. Þetta kemur fram Markaðspunktum Arion banka sem birtust í dag.

Frá miðju ári 2014 hefur verð á Brent hráolíu lækkað um 70%, mælt í Bandarikjadal. Verðlækkun á hráolíu skilar sér þó ekki að fulla í verði á bensínlítra við dæluna, enda stendur hráolía aðeins undir litlum hluta af heildarverðinu. Þrátt fyrir það hefur verð á dælunni lækkað um 23% frá júní 2014. Rekstur bifreiða er um 11% af neyslu heimila og geta breytingar á olíuverði því skert eða aukið við neyslumöguleika heimilana á öðrum vörum.

Greiningardeildin segir að ef eldsneyti er helmingur kostnaðar við rekstur bifreiðar þá megi áætla að heimilin hafi sparað tæpa sjö milljarða á verðlækkun bensínlítrans árið 2015, að öllu öðru óbreyttu.

Bent er á að vísbendingar eru um að hluti þess hafi farið í beinan sparnað, en samkvæmt peningarmálum Seðlabankans hefur hann aukist undanfarið. Einnig hefur þó verið aukning í utanlandsferðum, auk raftækja og bílasölu.

Óbein áhrif

Auk beinna áhrifa, gegnum lækkun bensínliðs, koma einnig fram óbein áhrif lækkun olíuverðs í lækkun aðfangaverðs til fyrirtækja. Greiningardeildin segir að lækkun olíuverðs, ásamt verðlækkun annarra hrávara á heimsmarkaði og styrkingu krónunnar, hafi skapað svigrúm fyrir fyrirtæki til að takast á við miklar launahækkanir sem samið var um á síðsta ári í stað þess að velta þeim beint út í verðlagið.