Útlit er fyrir allmyndarlegan hagvöxt á þessu ári, að mati Greiningar Íslandsbanka, en bankinn gaf í dag út Þjóðhagsspá sína fyrir árin 2017 til 2019. Útlit er fyrir að í kjölfarið dragi jafnt og þétt úr hagvexti á seinni hluta spátímabils. Greining Íslandsbanka spáir 4,5% hagvexti í ár, 2,8% vexti á næsta ári og 2,3% hagvexti árið 2019. Hægt er að lesa Þjóðhagsspána hér.

Tekið er fram að aukin umsvif heimilanna, og þá sér í lagi einkaneysla og íbúðafjárfesting, verði helsti burðarás vaxtar á spátímabilinu. Þá taka ofangreindir undirliðir við af þjónustuútflutningi og fjárfestingu atvinnuvega, þótt fyrrnefndi liðurinn muni raunar vaxa talsvert áfram næstu árin.

Mjúk lending fram undan?

Að mati Greiningar Íslandsbanka ber hægari vöxtur fremur merki aðlögunar að jafnvægivexti frekar en bakslags. „Allgóðar líkur eru á að hin margumtalaða en sjaldséða mjúka lending muni einkenna lok yfirstandandi hagsveiflu á Íslandi í þetta skiptið,“ að mati Greiningar Íslandsbanka.

Í Þjóðhagsspánni kemur fram að verðbólga hafi verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá febrúar 2014. „Það er langlengsta tímabil verðbólgu undir markmiði frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp á vordögum 2001,“ segir í spánni.

Þá gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir að verðbólga fari yfir það markmið Seðlabanka Íslands á næsta ári. Spáð er að hún verði 1,9% í ár, 3% á næsta ári og svo 2,8% árið 2019.