Reykjavíkurborg hyggst byggja fimm smáhýsi fyrir heimilislausa á byggingarreit fyrir ofan Húsdýra- og fjölskyldugarðinn og neðan Suðurlandsbrautar í Laugardal en íbúasamtök svæðisins vilja kynningarfund eftir lok samkomubanns um málið að því er Fréttablaðið greinir frá.

Lilja Sigrún Jónsdóttir formaður Íbúasamtaka Laugardals segir um mikla breytingu að ræða svo samtökin vilja fá kynningarfund um málið, og fór hún því fram á lengri frest til að senda inn athugasemdir. Óskaði hún eftir því að fresturinn yrði framlengdur fram á sumar eða haust, en á fundi skipulagsfulltrúa var fresturinn framlengdur til 29. apríl, annars hefði hann runnið út í dag, 15. apríl.

Tillagan felur í sér að á malarreit sem nú liggur á milli Engjavegar sem liggur meðfram Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum, og Suðurlandsbrautar, verði sett upp 35 fermetra smáhýsi sem eiga að vera búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkur, sem sett hefur upp slík smáhýsi víða um borgina, þar á meðan úti á Granda.

„Óbreytt afgreiðsla hennar, í samkomubanni sem hamlar fundahöldum fólks, er ekki forsvaranleg að okkar mati,“ segir Lilja Sigrún í bréfi samtakanna til borgaryfirvalda.

„Laugardalur er ein af þeim takmörkuðu auðlindum sem við höfum í borginni og íbúasamtökin hafa alltaf viljað að þar vandi menn sig sérstaklega vel.[...] Við höfum áhyggjur af því að allt í einu á að fara að breyta deiliskipulaginu til að setja niður íbúðarhúsnæði inni á svæðinu þar sem enginn hefur átt að fá að búa.“

Borgarlínan svokallaða, það er strætóleiðir á sérakreinum, sem fyrir þremur árum var sögð kosta ríflega 70 milljarða í uppsetningu , mun að hluta til liggja eftir Suðurlandsbrautinni, en fyrsti áfangi hennar er talinn kosta um 25 milljarða króna .

Svokölluð græn leið, sem á að liggja frá Hlemm upp á Ártúnshöfða , mun liggja þarna um, en samkvæmt tillögum borgaryfirvalda um þéttingarsvæði við línuna er gert ráð fyrir byggð norðan megin við götuna rétt við malarplanið sem nú er gert ráð fyrir að smáhýsin verði reist á.

Fái skjólsælt og sólríkt útisvæði

Ekki er gert ráð fyrir að smáhýsin verði varanleg, en í tillögum borgaryfirvalda segir að leitast verði við að hafa bil á milli húsanna, „eða það sem hentar skjólstæðingum, svo hvert og eitt þeirra hafi möguleika á skjólsælu og og sólríku útisvæði,“ segir í tillögunum.

„Gera skal ráð fyrir trjám og gróðri við hönnun lóðarinnar. Frágangur verður snyrtilegur og hæfir íbúðarhúsnæði, með hellulögðum gangstígum og grasþökum.“

Komið hefur fram sú gagnrýni að há hús meðfram Suðurlandsbraut norðan megin muni skyggja verulega á útivistarsvæðið í dalnum, sem væntanlega á við um malarplanið sem á að verða að sólríku útivistarsvæði samkvæmt tillögunum.