Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði Arion banka í vor að gera fjárnám í fasteign Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra og helstu driffjöður United Silicon, vegna tryggingabréfs sem Tomahawk Development á Íslandi hf. gaf út. Dómurinn var kveðinn upp í mars en birtur á vef dómstólanna í dag.

Sagt var frá aðalmeðferð málsins í Viðskiptablaðinu í vor. Magnús byggði varnir sínar á því að bankinn hefði sýnt af sér stórkostlegt tómlæti við innheimtu skuldarinnar, sem var alls tæpar fimm milljón krónur, en rúmlega 30 mánuðir liðu frá því að skuldin gjaldféll og þar til málið var þingfest. Magnús var ábyrgðarmaður skuldarinnar og taldi lögmaður hans að það gengi ekki upp að ábyrgðarmenn gætu þurft að bíða í nærri áratug í að botn fengist í mál þeirra.

Bankinn sagði á móti að tilraunir til stefnubirtingar hefðu hafist strax í byrjun árs 2018. Reynt hefði verið að birta tvívegis í Danmörku og öðru sinni á Spáni. Á endanum var stefnan birt í Lögbirtingablaðinu. Magnús sjálfur mætti að sjálfsögðu ekki í aðalmeðferðina.

„Hvað röksemdir um tómlæti varðar þá verður ekki horft framhjá því að það er búið að hundelta hann um alla Evrópu með það að marki að stefna honum. Það að við erum stödd hér, á þessum tímapunkti, stjórnast af aðgerðum stefnda sjálfs,“ sagði Ingvar Ásmundsson, lögmaður bankans, í málflutningsræðu sinni.

Magnús byggði enn fremur á því að hann hefði sammælst við útibússtjóra Arion á Suðurnesjum um að tryggingabréfið yrði fellt niður. Að mati dómsins voru engar sannanir fyrir því að það hefði verið gert. Dómurinn féllst heldur ekki á að bankinn hefði sýnt af sér tómlæti.

„Þar fyrir utan fyrnist krafa samkvæmt veðtryggingabréfi ekki og því gæti hún ekki heldur liðið undir lok sakir tómlætis veðhafans,“ segir í niðurstöðu dómsins. Fjárnámið var því heimilað en auk þess þarf Magnús að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað.