Nýtt stjórnarfrumvarp um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni hefur verið lagt fram á Alþingi. Í frumvarpinu er verið að samræma löggjöf um farþegaflutninga og aðlaga hana að réttarfari á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta er því fyrsta heildstæða löggjöfin um farþegaflutninga á landi á Íslandi. Lögin ná meðal annars yfir almenningssamgöngur, leigubílaakstur, skólaakstur og farþegaflutninga tengda ferðaþjónustu.

Alls eru lagagreinarnar í nýja frumvarpinu 71 talsins og lögin því töluvert viðamikil. Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu. Meðal annars er gert ráð fyrir að í almenningssamgöngum verði heimilt að sekta farþega, sem virða ekki fyrir fram birtar reglur um greiðslu á fargjaldi, aðgangstakmarkanir, notkun aðgangskorta, umgengni eða aðra þætti í þjónustunni.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að þetta ákvæði sé tilkomið vegna ábendinga þeirra sem veita þjónustuna. Forsendan fyrir því að hægt verði að sekta farþega er að skýrt verði greint frá reglunum, meðal annars í samgöngumiðstöðvum og þegar gengið sé inn í almenningsvagn.

Samkvæmt frumvarpinu fær Samgöngustofa heimild til að beita stjórnvaldssektum. Farið er nákvæmlega yfir fyrir hvaða brot hún má sekta og eru tilgreind 43 atriði. Samgöngustofa getur sektað fyrirtæki eða einstaklinga fyrir hafa ekki rekstrarleyfi og leigubílstjóra fyrir að hafa ekki gjaldskrá sýnilega viðskiptavinum, svo eitthvað sé nefnt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .