Í ágúst er von á nýju veftímariti sem fjalla mun um allt er viðkemur heimilum, hönnun, mat og víni. Tímaritið mun bera heitið NUDE home og er stofnað í samstarfi við veftímaritið NUDE magazine.

Hið síðarnefnda er veftímarit með innbyggðum myndböndum og kom fyrsta tölublaðið út árið 2010. Tímaritið var það fyrsta sinnar tegundar hér á landi og hefur komið út mánaðarlega síðan.

NUDE home verður væntanlega með svipuðu sniði og mun koma út á tveggja mánaða fresti auk þess sem reglulegar uppfærslur verða á heimasíðu blaðsins.

Þórunn Högnadóttir, sem áður starfaði sem blaðamaður hjá Húsum og híbýlum, mun ritstýra Nude home.