Heimilum í vanskilum hjá Íbúðalánasjóði hefur fækkað um 10% eða um 420 heimili það sem af er ári. Í lok ágúst nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 4,7 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 81,5 milljarðar króna eða um 12,43% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,45% lækkun frá fyrri mánuði. Heimili í vanskilum eru 4.291 og þar af eru 638 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru 8,59% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok ágúst 2013. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Þá segir að fjárhæð vanskila útlána til lögaðila hafi numið alls 4,1 milljarði króna og nam undirliggjandi lánavirði 31,7 milljörðum króna. Tengjast því vanskil 21,33% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,38% hækkun frá fyrri mánuði. Vanskil eða frystingar ná samtals til 14,08% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í ágúst 2012 nam 15,56%.

Í mánaðarskýrslunni segir einnig að heildarútlán Íbúðalánasjóðs í ágúst 2013 námu 1,1 milljarði króna, en þar af voru 900 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í ágúst 2012 um 1,4 milljörðum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var um 11 milljónir króna. Þá var heildarvelta íbúðabréfa nam 28,4 milljörðum króna í ágúst samanborið við 30,4 milljarða í júlí 2013. Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 10,6 milljörðum króna í ágúst. Uppgreiðslur námu 1,4 milljörðum króna.