Útvarpsmaðurinn Heimir Karlsson á Bylgjunni fundaði með Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, árið 2009 sem fulltrúi viðskiptamanns frá Hong Kong sem vildi fjárfesta hér. Fram kom kynningu sem Heimir hélt fyrir ráðherra að maðurinn í Hong Kong væri svo ríkur að stjórnvöld gætu afþakkað aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fjallað er um málið í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson. Bókin kom út í dag.

Heimir er í bókinni nefndur sem einn þeirra svokölluðu lukkuriddara, íslenskra einstaklinga sem sögðust vera umboðsmenn erlendra fjárfesta sem vildu fjárfesta hér eftir hrun. Auk Heimis er greint frá Kristjáni nokkrum Stefánssyni sem fundaði með þrotabúum bankanna ásamt konu í pels sem sögð var rússnesk greifynja. Í bókinni segir að Kristján og viðskiptafélagi hans hafi flutt mikla kynningu fyrir forsvarsmenn þrotabúanna en greifynjan horft á. Eins og því er lýst í bókinni gekk kynningin út á að greifynjan myndi fjármagna eitt og annað hér á landi.

Lofuðu upp í ermina á sér

Í bókinni segir um lukkuriddarana:

„Lukkuriddararnir áttu það sameiginlegt að lofa upp í ermina á sér án þess að geta staðið við stóru orðin þegar á hólminn var komið.“

Í samræmi við það varð ekkert af fjárfestingum greifynjunnar hér, að því er segir í bókinni. Ekkert kemur hins vegar fram um það í bókinni hver árangur auðuga mannsins frá Hong Kong var. Nafn hans er heldur ekki getið. Sömu sögu er að segja af rússnesku greifynjunni.