Heimkaup.is bjóða frá og með deginum í dag upp á verðvernd á öllum raftækjum. Það þýðir að ef viðskiptavinir sem kaupa raftæki á Heimkaup.is finna vöruna ódýrari í annarri verslun á Íslandi fá þeir mismuninn endurgreiddan.

Íslensk fyrirtæki hafa áður boðið upp á verðvernd t.a.m. Elko sem bauð upp á verðvernd til margra ára en ákváðu að hætta því í aðdraganda komu Costco til Íslands.

Verðvernd Heimkaup.is gildir í 30 daga frá kaupum og viðskiptavinir fá mismuninn greiddan innan 72 klukkustunda eftir að gild umsókn um verðvernd hefur verið send. Í tilkynningu frá Heimkaupum segir að mögulegt sé að bjóða upp á verðverndina í krafti samstarfs þeirra við Euronics, stærsta innkaupasambands raftækja í Evrópu. Heimkaup keyptu sig inn í Euronics Danmark A/S á síðasta ári.