Neytendastofa hefur sektað Wedo ehf., rekstraraðila Heimkaupa, um 400 þúsund krónur fyrir að auglýsa Tax Free afslátt án þess að tilgreina prósentuhlutfall afsláttarins. Þetta er í annað sinn á tæpum þrettán mánuðum sem félagið fær sekt fyrir slíkt brot en í fyrra var það sektað um 200 þúsund krónur.

Í ákvörðun Neytendastofu segir að stofnunin hafi þann 17. júní orðið vör við umræddar auglýsingar og var óskað eftir skýringum. Í svari Heimkaupa kom fram að um mistök hefðu verið gerð. Félagið vissi fullvel að prósentuhlutfallsins þyrfti að geta en þarna hafi orðið handvömm. Félagið baðst afsökunar á þeim og þakkaði áminninguna.

Að því búnu tók Neytendastofa málið til ákvörðunar. Með vísan til atvika málsins, og til þess að tryggja varnaðaráhrif, taldi stjórnvaldið rétt að leggja á sekt í samræmi við heimildir laga. Í ljósi umfangs brotsins, fyrri ákvarðana stofnunarinnar og jafnræðis- og meðalhófsreglna stjórnsýsluréttarins var sektin á kveðin 400 þúsund krónur.

Í ákvörðun Neytendastofu frá í fyrra kom fram að stofnunin hefði áður haft afskipti af Heimkaupum vegna Tax Free auglýsinga. Árið 2015 var versluninni veitt áminning fyrir slíkt brot og mælst til þess að tryggt yrði að þetta myndi ekki gerast aftur. Í fyrra var prósentuhlutfallsins getið í hluta auglýsinga en ekki allra og ákvörðun um sekt því tekin.