Listsmiðjur og alls kyns uppákomur í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og félagsmiðstöðinni Miðbergi Á Heimsdeginum, 9. febrúar, fá börn og unglingar tækifæri til að taka þátt í listsmiðjum tengdum menningu framandi landa. Markmið hátíðarinnar er að kynna fyrir þeim þá fjölbreyttu menningarheima sem finnast í okkar nánasta umhverfi. Boðið verður upp á franska fjöllistasmiðju, skuggaleikhússmiðju og hægt verður að læra japanska leturgerð, skoskan dans, salsa, töfrabrögð og margt fleira.

Auk smiðjanna verða fjölbreyttar uppákomur á göngum Gerðubergs og Miðbergs: Móðurmálskór barna af erlendum uppruna syngur, og sýndur verður þjóðdans frá Ghana, bardagalistin Aikido og filippískur bambusdans, svo fátt eitt sé nefnt. Heimsdagurinn er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs, félagsmiðstöðvarinnar Miðbergs, Kramhússins, Alþjóðahússins, Borgarbókarsafns Reykjavíkur og Höfuðborgarstofu.