Á morgun verður tveimur öreindageislum skotið í gagnstæða átt í öreindahraðli evrópsku öreindarannsóknarstofnunarinnar (CERN). Því hefur verið haldið fram að við gangsetningu hraðalsins, sem ætlað er að endurskapa aðstæður sem ríktu í geimnum skömmu eftir Miklahvell (e. Big Bang) myndist lítið svarthol sem stækkar þar til það gleypir jörðina.

Aðrir hafa nefnt þann möguleika að notkun hraðalsins hrindi af stað keðjuverkun sem breytir kjörnum atóma og veldur því að allt efni jarðar breytist og hún verði heit og lin klessa.

Eðlisfræðingar á vegum CERN hafa þó bent á að á undanförnum milljörðum ára hafi sambærilegir árekstrar atóma og verða í öreindahraðlinum átt sér stað um milljón sinnum. Því sé engin ástæða til að óttast heimsendi.

Talið er að lítið svarthol geti myndast við árekstur öreindanna, en að líftími þess yrði afar stuttur.

Eðlisfræðingur við Háskólann í Cambridge, dr. Adrian Kent, hefur þó haldið því fram í skrifum sínum að vísindamenn hafi enn ekki rökstutt nægjanlega vel að gangsetning hraðalsins geti ekki haft hamfarir í för með sér. Hann benti einnig á að spurningu um hveru ósennilegur heimsendir þarf að vera til að réttlæta að haldið sé áfram með tilraunina hafi aldrei verið svarað.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Fjallað hefur verið nánar um tilgang tilraunarinnar með öreindahraðalinn áður hér.