Smásölusamstæðan Arcadia Group – sem rekur hátt í 500 verslanir, aðallega í Bretlandi, með um 13 þúsund starfsmenn – fór í greiðslustöðvun á mánudag.

Þrot félagsins átti sér þónokkurn aðdraganda, en strax í fyrra átti það við mikla erfiðleika að stríða og þurfti lán frá lánardrottnum til að bjarga því. Arcadia gekk afar vel framan af þessari öld, og þegar best lét stuttu fyrir hrun var eigandi þess, Philip Green, metinn á yfir 1.000 milljarða króna að núvirði, og var í miklum metum innan bresks viðskiptalífs.

Á öðrum áratug aldarinnar fór hins vegar að falla á bæði reksturinn og orðspor Green, sem að lokum var sviptur riddaratign og kallaður „hið óásættanlega andlit kapítalismans“.

Krúnudjásn keðjunnar, Topshop, var afar vinsælt meðal yngra fólks fyrir að selja tískuvöru á viðráðanlegu verði. Samkeppnin hefur hins vegar harðnað verulega, ekki aðeins í raunheimum, heldur hefur netverslun jafnt og þétt vaxið ásmegin, og getað boðið tæknisinnuðu ungviðinu enn betri verð.

Greiddi hærri arð en kaupverðið eftir aðeins þrjú ár
Green keypti Arcadia árið 2002 fyrir 850 milljónir punda, eftir að fallið hafði verið frá áformum um þátttöku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í kaupunum. Reksturinn gekk vonum framar næstu ár, og aðeins þremur árum síðar greiddi Arcadia út mesta arð í sögu Bretlands, 1,2 milljarða pund, eða rúmlega 40% hærri upphæð en Green hafði greitt fyrir félagið.

Ári seinna var Green sleginn til riddara að tillögu Tonys Blair þáverandi forsætisráðherra, fyrir afrek sín á sviði smásölu, og ári eftir það, á toppi góðæris fyrirhrunsáranna árið 2007, náði auður Green-hjónanna hámarki í rétt tæpum 5 milljörðum punda, eða um 630 milljörðum króna á gengi þess tíma, sem jafngildir yfir 1.100 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.

Vildu svipta Green riddaratign
Árið 2015 seldu Green-hjónin BHS verslunarkeðjuna fyrir eitt sterlingspund. Ári seinna fór keðjan í greiðslustöðvun, og með henni töpuðust 11 þúsund störf auk þess sem staða lífeyrissjóðs hennar var neikvæð um 571 milljón punda.

Green var harðlega gagnrýndur og samþykkt var á breska þinginu að svipta hann riddaratign sinni. Atkvæðagreiðslan var þó ekki bindandi. Green lagði síðar fram 363 milljónir punda til að bjarga lífeyrissjóðnum, og að lokum varð ekkert af sviptingunni.

Á síðasta ári var Arcadia orðið verðlaust, og Philip reiddi fram 25 milljónir punda til að bjarga lífeyrissjóði félagsins. Stuttu seinna slapp Arcadia naumlega við greiðsluþrot þegar lánardrottnar komu því til bjargar, gegn því að 50 verslunum yrði lokað og um þúsund manns sagt upp.

Náðarhöggið kom síðan með heimsfaraldrinum. Öllum verslunum Arcadia var lokað í mars vegna sóttvarnatilmæla. Um sumarið var 500 stjórnendum sagt upp í viðleitni til að skera niður kostnað, en allt kom fyrir ekki, og síðastliðinn mánudag fór félagið sem fyrr segir í greiðslustöðvun, eftir að Green hafnaði boði síns helsta keppinautar, Mike Ashley, um neyðarlán.