Hagnaður af reglulegri starfsemi Heimsferða dróst mikið saman á síðasta ári, úr 52,3 milljónum króna árið 2017 í 2,7 milljónir króna.

Að teknu tilliti til tapaðra krafna vegna gjaldþrots Primera Air og Primera Travel Group (PTG) var afkoma félagsins hins vegar neikvæð um 767,9 milljónir króna. Alls námu tapaðar kröfur á hendur Primera Air og PTG 938,7 milljónum króna.

Félagði segir þó undirliggjandi starfsemi Heimsferða hafa gengið vel á síðasta ári, en rekstrartekjurnar jukust um 8% milli ára, úr 3,9 milljörðum í 4,3 milljarða króna.

100 milljóna einskiptiskostnaður

Gjaldþrot Primera Air hafi hins vegar haft neikvæð áhrif á reksrarkostnað félagsins og því hafi þurft að ráðast í mikla endurskipulagningu. Þannig hafi nýir flugsamningar félagsins jafnframt reynst kostnaðarsamir. Einskiptiskostnaður vegna Gjaldþrots Primera Air er að mati stjórnenda um 95,7 milljónir.

Í árslok 2018 voru heildareignir Heimsferða 832,8 milljónir króna, samanborið við 1.055,7 milljónir í árslok 2017, og eigið fé nam 51,3 milljónum króna, samanborið við 399,1 milljón í árslok 2017. Þar með hefur eiginfjárhlutallið lækkað úr 37,8% í 6,2% milli ára.

Arion banki tók yfir rekstur Heimsferða í júní á þessu ári með það að markmiði að tryggja áframhaldandi starfssemi félagsins. Bankinn tók á sama tíma einnig yfir rekstur Terra Nova Sól ehf., sem einnig varð fyrir tapi á árinu 2018 vegna gjaldþrots Primera Travel Group, sem var fyrrum móðurfélag þess. Söluferli hefur hafist á báðum félögum og eru viðræður við mögulega fjárfesta hafnar.

Nærri hálfs milljarðs tapa af Terra Nova Sól

Nam tap Terra Nova Sól ehf. 3,3 milljónum evra á síðasta ári, eða sem samsvarar 462 milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag. Heildarhagnaður félagsins eftir skatta nam hins vegar 763 þúsund evrum, en vegna taps af gjaldþroti Primera Travel Group upp á 4,1 milljón evra var tap á starfseminu á árinu.

Rekstrartekjurnar námu 15,4 milljónum evra, sem er lækkun frá 17,7 milljónum evra árið 2017, en á sama tíma lækkuðu bein rekstrargjöld félagsins einnig svo rekstrarhagnaðurinn nam 954 þúsund evrum, sem er töluvert meira en 136 þúsund evrur 2017.

Heimsferðir fljúga til Tenerife, Gran Canaria auk borgar-, golf- og sólarlandaferða

Horfur fyrir árið 2019 eru sagðar jákvæðar þrátt fyrir að fyrri hluti ársins hafi verið krefjandi m.a. vegna áhrifa falls Primera Air. Þegar hefur verið gengið frá samningum um flug fyrir félagið í vetur og verða ferðir til Tenerife og Gran Canaria í boði fjórum sinnum í viku yfir vetrartímann.

Auk þess hefur þegar verið gengið frá samningum við flugfélagið Neos um flug fyrir Heimsferðir næsta sumar.  Gert er ráð fyrir að flugvél verði staðsett á Íslandi eins og undanfarin ár og verða bæði stök flugsæti og pakkaferðir í boði fjóra daga vikunnar.

Auk þess eru Heimsferðir með mikinn fjölda ferða í boði bæði vor og haust, þar sem flogið verður með flugfélaginu Neos og öðrum flugfélögum í fjölda borgar-, golf- og sólarlandaferða á þessu tímabili.