Ríflega einu og hálfu ári eftir að Arion banki tók yfir sjö ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypunni sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar gæti sala á fimm ferðaskrifstofum á Norðurlöndunum átt sér stað í vikunni.

Samkvæmt frétt Túrista eru vonir bundnar við að evrópski fjárfestingarsjóðurinn Triton muni nýta sér forkaupsrétt Traveloco Nordic sem heldur utan um fimm ferðaskrifstofur á Norðurlöndunum. Í frétt Túrista er vitnað í viðtal við Peder Hornshøj, framkvæmdastjóra Travelco Nordic, við dönsku ferðasíðuna Standby frá því á föstudag.

Aftur á móti er bent á að síðan á föstudag hafi útbreiðsla kórónuveirunnar í Evrópu aukist til muna sem hefur gert ferðaskrifstofum og ferðaþjónustufyrirtækjum erfitt fyrir.

Gangi viðskiptin eftir verða Heimsferðir eina ferðaskrifstofan sem enn verður í eigu Arion en á dögunum var gengið frá kaupum Nordic Visitor á íslensku ferðaskrifstofunni Terra Nova sem einbeitir sér að ferðum innanlands.