Heimsferðir hafa keypt fjórðu stærstu ferðaskrifstofu Danmerkur, segir í tilkynningu frá félaginu. Danska ferðaskrifstofan nefnist Bravo Tours og segja Heimsferðir að félagið hafi ?vaxið hvað hraðast á danska ferðamarkaðnum síðustu fimm árin."

"Kaupin á Bravo Tours og þar áður Solresor og Solia eru í samræmi við þá stefnu Heimsferða að verða leiðandi norræn ferðaskrifstofa með sterka stöðu á öllum Norðurlöndunum," segir Andri Már Ingólfsson, forstjóri Heimsferða.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en áætluð ársvelta Bravo er um fjórir milljarðar. Heimsferðir segja rekstur Bravo hafa gengið vel undanfarin ár og 350 milljón króna hagnaður hafi verið af rekstrinum á síðasta reikningsári, sem lauk þann 30. september.

Bravo er þriðja norræna ferðaskrifstofan sem Heimsferðir kaupa á þessu ári. Í lok júní síðastliðins keypti félagið sænsku ferðaskrifstofuna STS Solresor og norsku ferðaskrifstofuna STS Solia. Heimsferðir segja að Solresor og Solia hafi einnig verið reknar með góðum hagnaði.

"Með kaupunum á Bravo Tours til viðbótar hafa Heimsferðir því náð mjög traustri fótfestu í ferðaþjónustu á Norðurlöndunum," segir í tilkynningu Heimsferða. "Mikil samlegðaráhrif fylgja þessum viðskiptum. Samnýting á flugi, gistingu, skrifstofuaðstöðu erlendis og starfólki mun skila sér í hagkvæmari rekstri og þar með lægra verði til viðskiptavina og enn betri þjónustu."

Samanlögð velta Heimsferða á þessu ári er áætluð yfir 16 milljarðar króna og miðað við áætlanir næsta árs og innri vöxt fyrirtækjanna er gert ráð fyrir yfir 20 milljarða króna veltu á næsta ári.

Kaupþing London annaðist ráðgjöf vegna kaupanna og KB Banki annast fjármögnun.