Heimsferðir gengu frá kaupum á sænsku ferðaskrifstofunni STS Solresor og norsku ferðaskrifstofunni STS Solia í Gautaborg í gær. Seljandi er STS International. Fyrirtækið er eitt af þeim ferðaþjónustu¬fyrirtækjum í Skandinavíu sem hraðast hafa vaxið undanfarin ár og er stærsta sjálfstæða ferðaskrifstofan sem enn er í einkaeigu.

STS Solresor er ein af leiðandi ferðaskrifstofum Svíþjóðar. Félagið er með skrifstofur í Stokk¬hólmi, Malmö og Gautaborg. STS Solia hefur aðalskrifstofur í Osló. Þessi tvö systurfyrirtæki flytja á þessu ári um 170 þúsund farþega í eigin flugi til áfangastaða sinna. Heildarvelta Solresor og Solia er áætluð tæpir 9 milljarðar króna í ár. Sameiginleg velta fyrirtækjanna með Heimsferðum er áætluð tæpir 12 milljarðar á árinu.

Helstu áfangastaðir Solresor og Solia eru Azoreyjar, Madeira, Kanaríeyjar, Mallorka, Menorka, Malta, Egyptaland, Oman, Tyrkland, Thailand, Malasía og Kenya. Á næstu mánuðum verða kynntir nýir áfangastaðir fyrir árið 2006 og nýjar þjónustuleiðir fyrir skandinaviska markaðinn sem fyrirtækið hefur ekki boðið fram til þessa. Jafnframt munu Heimsferðir kynna Íslendingum nýja ferðamöguleika sem þeim hefur ekki staðið til boða áður.

Framkvæmdastjóri Solresor í Svíþjóð er Martin Wirth og framkvæmdastjóri Solia í Noregi er Gunder Moe. Þeir munu báðir starfa áfram og ekki er fyrirhuguð breyting á stjórn fyrirtækjanna. Stjórnarformaður verður Andri Már Ingólfsson, eigandi Heimsferða. Rekstur Solresor og Solia hefur gengið mjög vel undanfarin ár og fyrirsjáanlegur er methagnaður á árinu 2005. Frekari samþætting rekstrar fyrirtækjana mun eiga sér stað hægt og rólega, en Heimsferðir skilgreina nú Ísland og alla Skandinavíu sem markaðssvæði sitt til vaxtar í framtíðinni, en skandinavíski markaðurinn er um 100 sinnum stærri en íslenski markaðurinn

Ferðaskrifstofurnar þrjár munu njóta stærðarhagkvæmni í innkaupum, bæði hvað varðar flug og gistingu og munu viðskiptavinir Heimsferða á Íslandi strax njóta þess með verulegri verðlækkun á ferðum til Kanaríeyja, en Solresor og Heimsferðir flytja samtals tæplega 40 þúsund farþega til Kanaríeyja á ári. Samnýting á gistingu, skrifstofuaðstöðu erlendis og starfólki mun strax skila hagkvæmni fyrir fyrirtækin og til viðskiptavina segir í fréttatilkynningu Heimsferða.