Heimshagkerfið er á tímamótum og viðbúið að hagvöxtur verði almennt meiri en áður var reiknað með, samkvæmt hagspá Alþjóðabankans. Fram kemur í ársskýrslu bankans að efnaðri ríki heimsins standi nú orðið betur en fyrir nokkrum misserum síðan. Þegar við bætist að reikna með því að hagkerfi þróunarríkja séu að taka við sér megi reikna með meiri hagvexti að meðaltali á heimsvísu en áður var spáð.

Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur upp úr ársskýrslunni að dragi seðlabanki Bandaríkjanna úr stuðningi sínum við efnahagslífið, s.s. með því að draga frekar úr kaupum á skuldabréfum, þá geti það haft neikvæð áhrif á hagkerfi landsins og jafnvel valdið því að seðlabankar heimsins hækki stýrivexti. Gangi þær spár eftir megi svo gera ráð fyrir að það komi niður á efnahagslífi þróunarríkja.