Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en hún tekur við starfinu af Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur sem starfar nú sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra.

Þórdís er 26 ára lögfræðingur. Hún lauk BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og ML gráðu frá sama skóla 2012. Meistararitgerð hennar fjallaði um lagasetningu á Íslandi og hvert hlutverk stjórnarskrár lýðveldisins er í þeim efnum. Nánar tiltekið rannsakaði hún hvernig stjórnarskrárákvæði geti stuðlað að því að lagasetning verði vandaðri. Meðal niðurstaðna hennar var að íslensk stjórnsýsla sé veik í samanburði við nágrannalönd og Evrópuríki og á eftir í þróun að bættri lagasetningu.

Þórdís var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar en áður starfaði hún m.a. hjá sýslumanninum á Akranesi, Marel og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hún hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. verið formaður ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og stjórn Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .