Blaðamaður náði tali af Sigurþóri Gunnlaugssyni á 80 ára afmælisdegi Stangaveiðifélags Reykjavíkur,  sannkölluðum hátíðisdegi.  „Við erum að gera allt klárt fyrir hátíðarhöldin á eftir, undirbúa grillið og svona,“ segir Sigurbjörn sem hefur formlega störf sem  framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, þann 1. júní.

„Starfið leggst ákaflega vel í mig og ég er mjög spenntur. Það er náttúrulega frábært að fá tækifæri til að starfa hjá félagi með jafn langa og merka sögu eins og Stangveiðifélagi Reykjavíkur. Forveri minn,  Ari Hermóður Jafetsson,  hefur unnið ötullega að því að endurnýja samninga á öll lykilveiðisvæði félagsins og fyrir vikið mun ég í sumar geta einbeitt mér að því að auka og bæta þjónustu við félagsmenn.”

Sigurþór hefur mikla reynlsu af rekstri, verkferla- og fjárhagsáætlanagerð og kostnaðareftirliti. Hann starfaði m.a. áður sem markaðsstjóri Kringlunnar og síðar stjórnandi hjá Air Atlanta Icelandic, ma.a. stöðvarstjóri í Bretlandi og Indlandi, og yfirmaður á flugrekstrarsviði, útstöðva og ferða.

„Ég er algjör heimshornaflakkari, finnst rosalega gaman að ferðast og í gegnum tíðina hef m.a. búið á Indlandi, Englandi, í Ekvador og Bandaríkjunum. Það hentaði mér því vel að vinna hjá Atlanta þar sem ferðalög voru stór hluti af starfinu. Meðal annars fór ég reglulega til  Miðausturlanda, en það var lærdómsríkt að starfa í öðruvísi menningarheimi. Sem ferðamaður horfir maður nefnilega  á samfélagið utan frá en þegar maður vinnur á staðnum kemst maður nær samfélaginu og myndar öðruvísi tengsl við íbúana.

Í upphafi virðist vera himinn og haf á milli menningarheima, en munurinn minnkar því lengur sem maður dvelur á staðnum og kynnist fólkinu betur. Að lokum sér maður að fólk er fólk sama hvaðan það kemur. Maður fer að átta sig á því að þrátt fyrir ólíka siði og hefðir er fólk ósköp svipað hvar sem það býr.“

Spurður út í áhugamálin segist Sigurþór hafa gaman af útivist, ferðalögum um landið og svo auðvitað veiði, en veiðiáhuginn hafi þó komið aðeins seinna inn í myndina. „Mér var fyrst boðið í veiðiferð með vinum og kunningjum á fullorðinsárum og síðan þá hef ég veitt á hverju sumri. Annars finnst mér gaman að læra og prófa eitthvað nýtt eins að kynnast nýju fólki í nýju umhverfi og samhengi. Ég hlakka því mikið til að kynnast betur þeim frábæra og stóra hópi félagsmanna í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur,“ segir Sigurþór fullur tilhlökkunar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .