Farfuglaheimilið á Vesturgötu og Loft í Bankastræti hlutu á dögunum viðurkenningu alþjóðasamtaka farfuglaheimila fyrir að hafa verið valin bestu farfuglaheimili í heimi árið 2014. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Það eru gestir heimilanna sem bókuðu þjónustu sína á bókunarvél samtakanna sem standa fyrir valinu. Alls eru um 2500 Farfuglaheimili um allan heim bókanleg á vefnum. Loftið lenti í fyrsta sæti og Vesturgatan fylgdi fast á eftir, en þetta er í fyrsta sinn sem tvö farfuglaheimili frá sama landi komast á topp 3 listann.

„Verðlaunin eru viðurkenning á að vel hafi tekist upp við hönnun og þjónustu á heimilunum en einnig til handa einstöku starfsfólki, sem gerir miklar faglegar kröfur til sín og nýtur þess að taka á móti gestum af alúð,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík.