Gúmmíframleiðsla umfram eftirspurn í heiminum verður um 652.000 tonn í ár samkvæmt spá sem breska ráðgjafafyrirtækið The Rubber Economist gefur út og verður offramboðið því mun meiri en gert var ráð fyrir um síðustu áramót. Þá spáði fyrirtækið því að offframleiðslan myndi nema um 366.000 tonnum í ár.

Þessi mikli munur á framleiðslu og eftirspurn hefur keyrt heimsmarkaðsverð á gúmmí niður og hefur það ekki verið lægra í fimm ár. Fyrr í þessum mánuði ákváðu stjórnvöld í Tælandi að setja 200.000 tonn af gúmmíi á markað, en gúmmíið hafði verið hluti af varabyrgðum þar í landi. Tonn af gúmmíi, til afhendingar eftir mánuð, kostar nú um 1.710 dali og hefur lækkað um 22% frá áramótum.

Eftirspurn eftir gúmmíi er enn mjög mikil, en hún er ekki eins mikil og framleiðendur gerðu ráð fyrir að hún yrði. Í ljósi þess að sjö ár líða frá því að gúmmítré er plantað og þar til hægt er að vinna úr því gúmmí geta atburðir eins og bankahrunið 2008 og efnahagslegi samdrátturinn sem fylgdi í kjölfarið sett markaðinn úr jafnvægi. Skiptir þar mestu að vöxtur í Kína hefur ekki verið í samræmi við spár manna fyrir sjö árum.