Kaffineytendur fara ekki varhluta af þeirri almennu hækkun sem hefur orðið á heimsmarkaðsverði á hrávörum. Heimsmarkaðsverð á kaffibaunum hefur ekki verið hærra í áratug og hafa kaffiframleiðendur því þurft að velta þeirri þróun yfir í verðlagið á kaffi.

Samkvæmt frétt Financial Times hækkaði Kraft Foods - sem meðal annars á vörutegundina Maxwell House - verð til smásala í þessari viku um fjögur prósent. Þetta var önnur hækkunin á einum mánuði. Annað stórfyrirtæki, Proctor & Gamble, hefur þurft að grípa til sömu aðgerða.

Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur hækkað mikið að undanförnu og hafa til að mynda framvirkir samningar fyrir afhendingar á kaffibaunum í maímánuði hækkað um 40% að undanförnu. Kaffiþömburum sem þykir nóg um geta ekki heldur sótt sér skjól í te, en eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku er heimsmarkaðsverð á telaufum einnig í hæstu hæðum.

Heimsmarkaðsverð á kaffi er til marks um þann mikla verðbólguþrýsting sem hefur myndast í alþjóðahagkerfinu á síðustu misserum vegna verðþróunar á hrávörum. Þrátt fyrir að framleiðendur velti þeirri þróun út í verðlagið þá eru það smásalarnir sem á endanum ráða endanlegu verði til neytenda. Þessi þróun hefur meðal annars gert það að verkum að vinsæl matvæli og drykkir hafa hækkað í verði að undanförnu, en í því samhengi má nefna að pastaverð á Ítalíu og bjórverð í Þýskalandi.

Fram kemur í Financial Times að heimsmarkaðsverð á kaffi hafi hækkað vegna lítilla birgða hjá útflutningsríkjum og mikillar eftirspurnar. Kaffiframleiðendur hafa jafnframt kennt stöðutökum vogunarsjóða á kaffimarkaðnum um þróunina. Hins vegar hefur blaðið eftir sérfræðingum að framleiðendum hafi mistekist að verja sig með fullnægjandi hætti fyrir fyrirsjáanlegum hækkunum og þeir þurfi því að velta þeim út í verðlagið strax til þess að koma í veg fyrir minnkandi framlegð.