Heimsmarkaðsverð á olíu fór undir 56 Bandaríkjadali á fatið á mörkuðum í Evrópu í dag.

Olíufat til afhendingar í næsta mánuði hefur fallið um 1,23 dali í dag og fór í 55,81 dali.

Lækkunin er rakin til fregna um að japanska hagkerfið er runnið inn í formlegt samdráttarskeið, en það er skilgreint sem samdrátt í hagvexti tvo fjórðunga í röð. Japan er þar með komið í hóp með hagkerfum evrusvæðisins.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 62% frá því í sumar en þá fór það upp í 150 dali á fatið og náði þar með sögulegu hámarki.

Lækkun á heimsmarkaðsverði er fyrst og fremst rakin til þess að einsýnt þykir að efnahagssamdráttur í alþjóðahagkerfinu mun hafa í för með sér umtalsverðan samdrátt í eftirspurn eftir olíu.