Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ríflega tvöfaldast frá því í febrúar eða úr 35 dollurum í um 78 dollara á tunnu. Er verðið nú í framvirkum samningum til afgreiðslu í janúar skráð hjá Brent í London á 78,67 dollara og 77,25 dollara tunnan hjá WTI í New York. Hefur verðið hækkað í kringum 1% í morgun.

Eftir að hráolíuverðið náði methæðum í júlí 2008 eða 147,30 dollurum á tunnu, hrapaði það mjög ört í fyrrahaust og fór lægst í 30,28 dollara (spot-verð) á tunnu hjá WTI í New York þann 23. desember 2008. Í janúar 2009 var verðið komið upp í 40 dollara en lækkaði síðan niður í 35 dollara á tunnu um miðjan febrúar. Síðan hefur verðið farið stighækkandi, en þó með nokkrum sveiflum. Erlendir markaðsrýnar telja margir raunhæft að miða við að verð á olíu haldist í kringum 80 dollarar á tunnu á næstu mánuðum í takt við hækkandi verð á hrávöru almennt að undanförnu.