Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið undanfarið og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun desember 2005, segir greiningardeild Landsbankans. Olíuverð hefur lækkað um 12% frá byrjun árs 2006 og kostar fatið tæplega 54 dollara en það fór hæst í 78,4 dollara í júlí á síðasta ári.

?Haft er eftir Bloomberg að megin ástæða verðlækkana sé sú að hiti hefur verið yfir meðallagi í Bandaríkjunum og Evrópu undanfarið og því hefur fólk ekki þurft að kynda eins mikið og ætla mætti á þessum árstíma,? segir greiningardeildin.

Hún segir að OPEC ríkin, sem ráða yfir 40% af olíuframleiðslu í heiminum, reyni nú að sporna við verðlækkunum með því að draga úr framleiðslu. ?Þau hafa þegar samþykkt að draga úr framleiðslu um 500 þúsund föt á dag frá 1. febrúar en ríkin drógu síðast úr framleiðslu í nóvember 2006 um 1,2 milljónir fata á dag,? segir greiningardeildin.

Rússar lokuðu olíuleiðslu sem liggur í gegnum Hvíta-Rússland og til Evrópu í gær. ?Wall Street Journal segir aðgerðirnar auka á áhyggjur Evrópuríkja af áreiðanleika Rússlands, en Rússland flytur mikið af olíu til Evrópu. Blaðið segir að enn sem komið er hafi aðgerðirnar ekki mikil áhrif þar sem Evrópuríkin segjast eiga nægar birgðir í bili,? segir greiningardeildin.