Hugbúnaðarfyrirtækið Calidris hefur síðustu árin þróað og selt hugbúnað sem er ætlaður flugfélögum. Hugbúnaðurinn leitar uppi villur í bókunarkerfi flugfélaga og hjálpar þannig flugfélögum að bæta sætanýtingu, auka tekjur og lækka kostnað.

Fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð mjög athyglisverðum árangri og eru mörg af stærstu flugfélögum heims viðskiptavinir Calidris.

Stofnendur fyrirtækisins eru Kolbeinn Arinbjarnarson, sem einnig situr í stjórn fyrirtækisins í dag, og Magnús Ingi Óskarsson framkvæmdastjóri.

Kolbeinn segir að grundvallarhugmyndin hafi fæðst hjá Icelandair en þar unnu þeir Magnús saman í mörg ár. Icelandair er lítið flugfélag sem er með jafnflókinn rekstur og risaflugfélögin og þar þurftu stjórnendur að hafa mjög breiða yfirsýn yfir allan reksturinn en á sama tíma að þekkja öll smáatriðin.

„Þar vorum við að berjast við þessi sömu vandamál sem allur flugheimurinn er að berjast við. Það kristallast í því að þessi atvinnugrein er rekin á 50 ára gamalli tækni,“ segir Kolbeinn.

Magnús segir flugfélög vinna í mörgum ólíkum einangruðum kerfum sem tali afskaplega illa saman sín á milli.

„Það sem við erum að gera er að taka þessar mismunandi upplýsingar úr þessum kerfum og tengja þær saman aftur og koma upp einhverri mynd sem er heildarmynd yfir öll gögnin. Hugbúnaðurinn skoðar þá allar bókanir úr gömlu kerfunum um leið og þær breytast en þar getur verið hellingur af vandamálum."

Kolbeinn segir þessar hugmyndir þeirra á sínum tíma hafa verið hlutfallslega lítið vandamál sem var mjög lítið sinnt á þeim tíma. Hins vegar hafi það getað haft mjög mikið að segja fyrir tekjur flugfélaganna ef vel var gert. Hann segir gömlu kerfin hafa einfaldar varnir sem ferðaskrifstofur hafi lært að komast framhjá.

Mörg flugfélaganna viti ekki af þessum vandamálum eða vilji ekki vita af þeim. Enn önnur segi þetta bara eðlilegan kostnað við að reka flugfélög.

„Það hefur líka verið hlutverk okkar að vekja athygli á þessu vandamáli. Þetta er í raun stórt vandamál miðað við þá framlegð sem flugfélög fá úr rekstri sínum. Ekki síst núna þegar illa gengur því það er nánast enginn kostnaður við að ná þessum tekjum inn. Þær eru á borðinu og það þarf bara að tryggja að þær komist í veskið."

Hann segir fyrsta verkefni þeirra hafa verið að sanna fyrir sjálfum sér og öllum flugheiminum að þeir gætu leyst þetta mál. Því hafi skipti miklu máli að fá alvöru flugfélag til að kaupa þessa hugmynd þeirra.

„Okkur, sem svona hæfilega rugluðum og bjartsýnum mönnum, fannst bara góð hugmynd að stefna á að verða hryggjarstykkið í upplýsingatæknikerfi stærstu flugfélaga í heimi. Allir aðrir hefðu sagt að við værum geggjaðir. En í dag erum við búnir að sanna fyrir okkur og öllum flugheiminum að við getum leyst þessi vandamál betur en allir aðrir. Í dag erum við með hryggjarstykkið í upplýsingakerfum British Airways sem er stærsta vörumerkið í flugheiminum í dag."

______________________________________

Nánar er fjallað um Calidris í viðtali við stofnendur þess, þá Kolbein Arinbjarnarson og Magnús Inga Óskarsson,  í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .