Brynjar Níelsson og Guðni Ágústsson ættu að vera öllum landsmönnum kunnugir, en þeir eru til viðtals í Áramótum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem kom út á dögunum. Brynjar segir þareftirminnilegustu uppákomu á þingferlinum hafa verið árið þegar Björt framtíð og Viðreisn slitu ríkisstjórnarsamstarfi, að hans mati að tilefnislausu.

„Þetta er eitthvurt mesta afrek í heimsku og vitleysu í stjórnmálum, ekki bara í Íslandssögunni, heldur heimssögunni," segir hann. „Um miðja nótt," bætir Guðni við og segir þau betur hafa sofið þá nótt.

„Að þetta skuli geta gerst segir manni bara hvað stjórnmálin á Íslandi voru veik á þessum tíma. Þetta voru að vísu minni flokkar en að einhverju leyti með reynt stjórnmálafólk innanborðs. Þetta var heimsmet í vitleysu" segir Brynjar. Guðni tekur undir þau orð og bætir við:

„Þetta sýndi að stjórnmálamennirnir voru bilaðir á taugum út af einhverju almenningsáliti. Enda hafa þau ekkert notið þess sem gerðu þetta. Þau ætluðu að eyðileggja hinn glæsilega foringja Bjarna Benediktsson en hann lifði þetta og lifir enn."

Nánar er rætt við þá Brynjar og Guðna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .