Nýjasta útgáfa netvafrans Firefox er á góðri leið með að slá met í að vera hlaðið oft niður á einum degi.

Firefox er næstvinsælasti netvafri í heimi og hefur nýjustu útgáfu hans, Firefox 3.0, verið hlaðið niður af milljónum manna nú þegar. Framleiðendur vafrans sögðust fyrir útgáfu hans ætla að slá heimsmet í niðurhali með honum.

Byrjunarörðugleikar stóðu þeim hins vegar í vegi um tíma. Netþjónninn sem vafrinn var á réði ekki við álagið til að byrja með og því virkaði vefsíða Firefox ekki hjá mörgum sem hugðust hala niður forritinu. Það tók fjóra tíma að koma kerfinu í samt lag aftur, en fljótlega eftir það var 14.000 eintökum hlaðið niður á mínútu, samkvæmt frétt Guardian.

Ekkert fyrra heimsmet er skráð í heimsmetabók Guinness í flokki niðurhals, en það mun engu að síður taka um viku að fá metið skráð.

Hlutdeild Firefox í netvaframarkaðnum er nú um 18,4% á meðan Internet Explorer hefur 73,8%. Nýjustu útgáfu Firefox má hlaða niður hér.