Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferða- og nýsköpunarmála, heimsótti starfsstöð íslenska fyrirtækisins Cooori í Tókýó í síðustu viku en hún var þá í opinberri heimsókn í Japan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Í heimsókn sinni fékk ráðherra kynningu á þeim hugbúnaði sem Cooori hefur þróað á síðustu árum, framtíðarsýn félagsins og markaðssókn þess í Japan.

Cooori er alfarið í eigu Íslendinga. Stærstu hluthafar þess eru m.a. Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins og Eyrir Sprotar. Frumkvöðull Cooori, Dr. Arnar Þór Jensson, lagði á það miklu áherslu í samtali við ráðherra  hversu gott umhverfi er til nýsköpunar á Íslandi og að styrkir frá aðilum á borð við Tækniþróunarsjóð hefðu á undanförnum árum gert það að verkum að fyrirtækið hefði náð lengra í þróun en ella.

Cooori hefur frá árinu 2009 þróað hugbúnað sem byggir á gervigreind, til kennslu á erlendum tungumálum á netinu. Hugbúnaðurinn tekur mið af minnisgetu nemandans með því að safna og geyma gögn um minnisgetu, námsframvindu og hæfni hvers notanda fyrir sig. Þessar upplýsingar mynda síðan tauganet, sem notað er til þess að sérsníða námsefnið fyrir hvern nemanda.

Cooori gerði í fyrra samstarfssamning við Toyota Technological Institute í Chicago. Samstarfið felst einkum í prófun og ítrun á gervigreind Cooori. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrirtækið hefur tekið saman á síðustu árum má fullyrða að nemendur eru allt að sjö sinnum fljótari að tileinka sér og muna námsefnið með því að nota Cooori í stað hefðbundinna kennsluaðferða. Rannsókn þar að lútandi var nýlega unnin af prófessor í ensku við Meiji Háskólann í Tókýó, Dr. Charles Browne.