Framkvæmdastjórn Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur sent frá sér ályktun þar sem ítrekuð er nauðsyn þess að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ESB) verði dregin til baka.

Þar segir að umsóknin hafi verið samþykkt og send ESB á forsendum sem reynslan hafi sýnt að standist ekki. Samningur um ESB snúist um skilyrði og tímasetningu fyrir innleiðingu umsóknarríkis á reglum ESB. Reglurnar séu ekki umsemjanlegar eins og fram komi hjá ESB.

„Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur þá skýru stefnu að Ísland eigi að standa utan ESB. Sú stefna er studd samþykktum æðstu stofnana ríkisstjórnarflokkanna,“ segir enn fremur í ályktuninni.

Framkvæmdastjórnin segir að lokum að mikilvægt sé fyrir þjóð eins og Íslendinga að þeir haldi fullveldi sínu og forræði í eigin málum. Það sé því rökrétt framhald að stjórnin leggi til við Alþingi að umsóknin verði dregin til baka og að Alþingi samþykki þá tillögu.