Fasteignafélagið Heimstaden, áður Heimavellir, hefur fest kaup á 26 leiguíbúðum á svokölluðum Brynjureit, við Hverfisgötu og Laugaveg. Félagið greinir frá þessu í færslu á Linkedin.

„Þetta er liður í stækkun félagsins. Hverfisgatan er skemmtilegt svæði í hjarta Reykjavíkurborgar og það er frábært að sjá uppbygginguna sem þarna hefur orðið,“ er haft eftir Gauta Reynissyni, framkvæmdastjóra Heimstaden.

Byggingaraðili fasteignarinnar er Þingvangur ehf sem fór í miklar framkvæmdir fyrir nokkrum árum á þremur reitum á milli Laugavegs og Hverfisgötu – Hljómalindarreit, Brynjureit og Vatnsstígsreit.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að sænska fasteignafélagið Heimstaden AB hafi lokið kaupum á öllu hlutafé í Heimstaden á Íslandi af Fredensborg ICE ehf. á 24,9 milljarða króna. Fredensborg, sem eignaðist Heimavelli á síðasta ári, er fyrir stærsti hluthafi Heimstaden AB með 86,2%.

Heimstaden á Íslandi er með 1.637 íbúðir í eignasafni sínu, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Virði fasteignasafnsins var um 55 milljarðar króna í lok mars síðastliðnum. Í tilkynningu evrópsku samtæðunnar í gær kom fram að frá afskráningu Heimavalla hefur íslenska dótturfélagið ráðist í umfangsmikil eignastýringarverkefni, bætt nýjum eignum við eignasafnið og lækkað fjármagnskostnað með endurfjármögnunaraðgerðum.