Heimsþing Alþjóðajarðhitasambandsins verður haldið á Íslandi árið 2020. Stjórn sambandsins hefur ákveðið þetta. Þingið verður haldið í Hörpu í apríl árið 2020.

Heimsþingið er umfangsmesti viðburður í jarðhitageiranum og er haldið á fimm ára fresti. Þar koma saman þúsundir jarðhitavísindamanna, verkfræðinga, tækjaframleiðenda, fjármálastofnana og annarra, að því er fram kemur í tilkynningu frá Iceland Geothermal. Búist er við því að fleiri þúsund ráðstefnugestir verði hér á landi í sjö til tíu daga.

Í tilkynningunni kemur fram að valið sé mikil viðurkenning fyrir það starf sem unnið hafi verið á Íslandi undanfarna áratugi við uppbyggingu jarðhitanýtingar. Útsláttarfyrirkomulag var á valinu og í lokaumferð varð Ísland ofan á á kostnað Þýskalands. Önnur ríki sem komu til greina voru meðal annars Bandaríkin, Kenía og Filippseyjar.

Undirbúningur umsóknar um að halda þingið tók sex mánuði og Iceland Geothermal leiddi vinnuna.