Heimstorg Íslandsstofu, ný upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar, verður opnuð í dag. Bein útsending verður frá Hörpu kl. 13.30-14.30 og verður hægt að fylgjast með henni neðst í fréttinni.

Eliza Reid, forsetafrú setur dagskrána og stýrir fundi. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, opnar Heimstorgið og flytur ávarp.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Brynhildur Georgsdóttir, verkefnastjóri kynna helstu þætti Heimstorgsins og þau fjölbreyttu tækifæri sem eru til staðar fyrir íslensk fyrirtæki úti í heimi. Þá mun Hákon Stefánsson, stjórnarmaður Creditinfo Group, segja frá reynslu fyrirtækisins á fjarmörkuðum.

Heimstorgið er hugsað þannig að þar geti atvinnulíf og stjórnvöld mæst og fyrirtæki geti m.a. sótt upplýsingar um mögulegan stuðning við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland veitir fjárframlög, og sótt sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað er hægt að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Íslandsstofa hefur umsjón með rekstri Heimstorgsins en í baklandi þess verða sérfræðingar utanríkisráðuneytisins um atvinnulíf og þróunarsamvinnu, viðskiptaþjónustu, uppbyggingarsjóðir í Evrópu, þ.m.t. uppbyggingarsjóður EES, auk annarra samstarfssjóða milli stjórnvalda og atvinnulífs sem íslensk fyrirtæki hafa aðgang að. Einnig sérfræðingar annarra ráðuneyta og tengiliðir um fjölþjóðlegar fjármögnunarstofnanir.

Á Heimstorginu verður haldið utan um þær leiðir sem fyrirtæki hafa til að njóta þjónustu og leiðsagnar hjá utanríkisþjónustunni, Stjórnarráðinu og eftir atvikum öðrum fyrirtækjum sem starfað hafa á svipuðum mörkuðum og stefnan er sett á. Þáverður hægt að sækja góð ráð hvernig er farsælast að sækja um styrki til valinna verkefna.