Alþjóðaverslun dróst saman um 13,8% í Bandaríkjadölum talið í fyrra og hefur hún ekki minnkað jafn mikið á einu ári frá því að fjármálakreppan hófst árið 2008. Er hér miðað við virði verslunar yfir landamæri. Í frétt Financial Times segir jafnframt að þetta sé í fyrsta skipti frá árinu 2009 sem alþjóðaverslun minnkar milli ára.

Er þetta byggt á nýjum tölum frá Bureau of Economic Analysis sem birtar voru í gær. Í fréttinni segir að áhyggjur fari nú vaxandi af því að árið 2016 verði jafnvel enn erfiðara fyrir hagkerfi heimsins en búist hefur verið við.

Í nýmarkaðslöndum er staðan jafnvel enn verri. Útflutningur og innflutningur til og frá Kína minnkaði um ríflega 10% í janúar frá sama tíma í fyrra. Útflutningur frá Kína til Brasilíu féll um 60% í janúar. Gámaflutningar til Brasilíu minnkuðu um helming samkvæmt tölum frá Maersk Line, stærsta gámaflutningafyrirtæki heims.

Nýtt jafnvægi lítils hagvaxtar

Í ræðu Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, á fundi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra G20 ríkjanna í dag segir að hætta sé á því að heimshagkerfið festist í nýju jafnvægi lítils hagvaxtar, lítillar verðbólgu og lágra vaxta.

Í vikunni varaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn við því að hann myndi lækka hagvaxtarspá sína fyrir heiminn í ár, en stærstu hagkerfi heimsins þurfi að gera meira til að ýta undir hagvöxt.