*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 29. júlí 2015 11:18

„Heimta upplýsingar í krafti valds og leggja svo á glámbekk“

Ungir sjálfstæðismenn leggjast harðlega gegn birtingu upplýsinga um skattgreiðslur einstaklinga.

Ritstjórn
Valhöll
Birgir Ísl. Gunnarsson

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við áform Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að leggja aftur fram frumvarp sitt um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr álagningar- og skattskrám og birtingu þeirra. 

„Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að birting skránna brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og sé með öllu óeðlileg. Fjárhagsmálefni fólks eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Það þurfa því að liggja gildar ástæður til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valds og leggja þær svo á glámbekk,“ segir meðal annars í ályktuninni.

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að birting upplýsinga um tekjur einstaklinga sé til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem hafi viðgengist á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum samningum. Með því að skylda ríkisskattstjóra til að leggja þessar viðkvæmu upplýsingar á glámvekk geri ríkisvaldið þennan trúnað að engu.

Ályktun SUS í heild:

„Samband ungra sjálfstæðismanna styður áform Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að leggja aftur fram frumvarp sitt um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr álagningar- og skattskrám og birtingu þeirra. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að birting skránna brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og sé með öllu óeðlileg.

Fjárhagsmálefni fólks eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Það þurfa því að liggja gildar ástæður til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valds og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um að borgararnir eigi að hafa virkt eftirlit með því hvort nágranninn greiðir of lága skatta geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar.

Það þekkist varla í heiminum að hver sem er geti - í tvær vikur á hverju ári - skoðað skattgreiðslur annarra og reiknað þannig auðveldlega út laun þeirra. Þá verður sú framkvæmd ríkisskattstjóra að taka saman lista yfir þá skattgreiðendur sem greiða mestan skatt og senda þá á fjölmiðla að teljast ámælisverð. Engin heimild er fyrir slíkri framkvæmd í núgildandi lögum og verður hún ekki varin með vísan til langrar venju.

Þá má benda á að birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem hefur viðgengist á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum samningum. Með því að skylda ríkisskattstjóra til að leggja þessar viðkvæmu upplýsingar á glámbekk gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.

Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn að styðja frumvarp Sigríðar á næsta þingi.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is