Um 67% hlutur gamla Landsbankans í bresku matvörukeðjunni Iceland Foods er skráður á um 127 milljarða króna í bækur bankans. Tilkynnt var um það fyrir stundu að búið sé að ganga frá sölu á verslunni til félags í eigu Malcolm Walker, forstjóra og stofnanda verslunarinnar, og annarra yfirstjórnenda fyrirtækisins. Kaupverðið nemur rúmum 1,5 milljörðum punda, jafnvirði ríflega 307 milljarða íslenskra króna. Viðskiptin ganga samstundis í gegn og er ekki annað vitað en að Walker og félagar séu þegar komnir með hlutabréfin í hendur, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Miðað við þetta skilar salan þrotabúi gamla Landsbankans um 196 milljörðum króna. Mismunurinn nemur 70 milljörðum króna. Þrotabúið lánar félagi Walkers og lykilstjórnenda 250 milljónum punda, jafnvirði um 50 milljörðum króna.

Miðað við þetta fær slitastjórn Glitnis, sem átti 10% hlut í Iceland Foods, um 30 milljarða króna. Félag Walkers og lykilstjórnenda átti fyrir 23% hlut í versluninni.