Útgáfu- og vefmiðlafyrirtækið MyD Reykjavik, sem meðal annars rekur ferðamanna vefinn My Destination Reykjavik, hefur keypt tímaritið What‘s On in Reykjavik af útgáfunni Heimi. Skipti á rekstrinum hafa þegar farið fram.

Fram kemur í tilkynningu að tímaritið What‘s On hafi verið gefið út mánaðarlega síðastliðin 30 ár. Markmið blaðsins er að vera gagnlegur leiðarvísir fyrir ferðamenn og veita sem bestar upplýsingar um það sem er á döfinni víðsvegar um landið.

MyD Reykjavik er upplýsingaveita fyrir ferðamenn, sem sérhæfir sig í fagmannlega framsettu og vel unnu efni, með sérstakri áherslu á myndefni og margmiðlun. Fyrirtækið hefur rekið vefsíðuna My Destination Reykjavik, auk þess að hafa nýverið hafið blaðaútgáfu, en til stendur að efla þann þátt starfseminnar til muna með tilkomu What‘s On.