Höft hafa verið á fjármagnsútflæði frá Íslandi síðan í nóvember 2008, en nú er haftatímabilinu senn að ljúka. Fyrir íslenska fjármagnseigendur þýðir það, að heimurinn fer að opnast á nýjan leik til fjárfestingar, varðveislu sparifjár og eignadreifingar handan landsteinanna. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa sum hver verið með samstarfssamninga við erlenda banka og eignastýringafyrirtæki allt síðan höftin voru sett á. Nú þegar hillir í afnám þeirra hafa mörg íslensku fyrirtækjanna verið að gera nýja samstarfssamninga við erlenda aðila í þeim tilgangi að auka framboð á fjárfestingarkostum úti í heimi. Þessir nýju samningar endurspegla vilja íslensku fjármálafyrirtækjanna til að komast í rás alþjóðavæðingar og frjálsra fjármagnshreyfinga á ný, og endurtaka ekki sömu mistök og voru gerð í stýringu fjármálagerninga fyrir hrun.

Viðbót hjá Kviku

Frá því að frumvarp fjármálaráðherra um losun hafta var lagt fram hefur fjárfestingabankinn Kvika, sem veitir alhliða fjármálaþjónustu með áherslu á eignastýringu, undirritað samstarfssamninga við bandarísku eignastýringarfyrirtækin T. Rowe Price og Wellington Management Company. T. Rowe Price var stofnað árið 1937 og stýrir eignum sem svara til um 776 milljarða Bandaríkjadollara eða rétt undir 90 þúsund milljörða íslenskra króna fyrir hönd viðskitpavina í 16 löndum og sjálfs fyrirtækisins. Wellington Management var stofnað árið 1928, er með stafsemi í 55 löndum og hefur um 969 milljarða dollara eða rétt yfir 112 þúsund milljarða króna í eignastýringu. Til samanburðar var Kvika með 112 milljarða króna í stýringu í lok júní síðastliðinn. Um er að ræða samninga um sölu og dreifingu á sjóðum þessara sjóðastýringarfyrirtæki til fagfjárfesta hér á landi. Samstarfið við T. Rowe Price miðar við hlutabréfa- og skuldabréfasjóði sem fyrirtækið stýrir á heimsvísu, á meðan samstarfið við Wellington tekur til hlutabréfasjóðsins Global Quality Growth, sem fjárfestir í hlutabréfum á öllum helstu mörkuðum heims.

Í samtali við Viðskiptablaðið lýsti Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, nýju samstarfssamningunum sem viðbót.

„Kvika býr vel að því að hafa verið með erlenda eignastýringu fyrir og eftir hrun, þannig að afnám haftanna breytir ekki stórkostlega miklu fyrir okkur," segir Sigurður Atli. "Við getum miðlað verðbréfum um allan heim og við erum tilbúin í að stýra eignum erlendis eftir afnám hafta. Þessir samningar einfaldlega styrkja okkur enn frekar.“

Kvika hefur átt í samstarfi við alþjóðlega fjárfestingabankann Credit Suisse um almenna þjónustu á alþjóðlegum mörkuðum frá árinu 2004, en nýju samstarfssamningarnir eru annars eðlis í því tilliti að þeir snúa eingöngu að markaðssetningu á sjóðum T. Rowe Price og Wellington Management til viðskiptavina Kviku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .