Kvika, Fossar Markaðir og Virðing hf. hafa nýverið skrifað undir samstarfssamninga við alþjóðleg fjármálafyrirtæki, en þau eru þó fjarri því að vera einu innlendu aðilarnir til að eiga í samstarfi við erlenda aðila undanfarin ár.

Gamlir samningar

Eignastýring Arion banka og Stefnir hf., sem eru til samans langstærsti aðilinn á íslenskum eignastýringarmarkaði með um 992 milljarða íslenskra króna í eignastýringu, hafa haft umboð frá stórum sjóðastýringafyrirtækjum á borð við Fidelity Investments og State Street Global Advisors undanfarin ár um sölu á sjóðum þeirra, auk JPMorgan Chase. Stefnir hf. hefur síðan átt í samstarfi við sjóðastýringarfyrirtækið Montanaro.

Eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, VÍB, hefur átt í samstarfi við fjármálarisa á borð við BlackRock, The Vanguard Group og DNB Asset Management um sölu á sjóðum þeirra undanfarin ár. Sjóðastýringaraðilinn GAMMA Capital Management, sem stýrir yfir 90 milljörðum króna fyrir hönd stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, hefur síðan átt í samstarfi við umsvifamikla sjóðastýringarfyrirtækið PIMCO um markaðssetningu á sjóðum til fagfjárfesta hérlendis frá 2011 og eignastýringarfyrirtækið GAM um beina fjárfestingu viðskiptavina GAMMA í alþjóðlegum sjóðum fyrirtækisins frá byrjun þessa árs.

ALM Verðbréf hefur síðan átt í samstarfi við norræna bankann Nordea Bank um sölu á erlendum sjóðum fyrirtækisins frá því í júní 2015, og Alda Asset Management hefur starfað með  alþjóðlega eignastýringarfyrirtækinu Aberdeen Asset Management um sölu og dreifingu á sjóðum fyrirtækisins undanfarin ár. Af þessu má sjá að samstarfssamningar Fossa Markaða og Virðingar hf. – sem og samnningur GAMMA og GAM – eru með óhefðbundnara sniði en samstarfssamnignar fyrri ára, að því leyti að þeir einskorðast ekki við sjóði rekstraraðila heldur opna gáttir í hinar ýmsu áttir.

Tilgangur fyrri samstarfssamninga erlendra sjóðastýringarfyrirtækja og íslenskra fjármálafyrirtækja, sem sinna eigna- og sjóðastýringu og verðbréfamiðlun, hefur í grófum dráttum verið tvíþættur. Annars vegar hafa þeir aukið framboð fjárfestingakosta fyrir þá viðskiptavini sem eiga eignir erlendis og hafa þar heimildir til endurfjárfestingar í fjármálagerningum í erlendri mynt. Hins vegar og þá aðallega hafa þeir verið liður í langtímaáformum íslenskra fjármálafyrirtækja um tækifæri íslenskra fjárfesta til nýfjárfestingar og eignadreifingar í erlendum sjóðum sem munu ‘virkjast’ við afnám hafta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .