Legatum stofnunin er bresk hugveita með það markmið að koma fólki frá örbirgð til allsnægta og vill gera það með því að hlúa að frelsi, framtaki og opnu samfélagi þar sem allir eiga hlut að máli. Og allsnægtir eru fleira en efnisleg gæði: velferð, frjálsræði og tækifæri, eru þar með.

Þetta styður hvert annað, því án opins hagkerfis þar sem samkeppni ríkir er erfitt að koma á varanlegri félagslegri og efnahagslegri vellíðan, þar sem einstaklingar, samfélög og fyrirtæki geta náð árangri og þroska. Það er hvatinn að þessari vísitölu, hversu opin þau eru fyrir verslun og viðskiptum, innanlands sem utan, og það opinbera umhverfi sem fólki og fyrirtækjum er búið.

Það er þá að einhverju að keppa, því jafnvel í landi eins og Íslandi, sem er öfundsvert meðal 30 opnustu landa heims, er lengi hægt að bæta sig og ýmislegt að varast eins og dæmin sanna.

Betri tíð er komin

Á heimsvísu er ástæða til bjartsýni um opin hagkerfi, því þar hefur enn miðað mikið áfram. Og það þrátt fyrir að víða hafi gætt efnahagslægðar að undanförnu og freistingar stjórnvalda til að skakka leikinn, auka afskiptin á heimavelli og reisa varnargarða gagnvart umheiminum.

Sennilega eru mörgum enn í minni hvernig slíkar ráðstafanir voru hamlandi á síðustu öld, bæði í þróuðum hagkerfum og ekki síður þróunarheiminum, sem þá var kallaður. Meiri skiptir þó að menn hafa árangur efnahagslegrar opnunar (hnattvæðingarinnar) undanfarinna 30 ára fyrir augunum um allan heim. Hún hefur verið hvati hagsældar og ekki hefur staðið á afrakstrinum. Talið er að um einn milljarður manna hafi komist úr sárri fátækt til bjargálna, jafnvel góðra efna, síðan 1990, en ef til vill segir það mesta sögu að um þessar mundir má meira en helmingur mannkyns teljast til miðstéttarinnar miklu.

Hagkerfi heimsins hafa aldrei verið opnari og sú þróun er almennt á eina leið, að samkeppni örvi menn til dugnaðar, dáða og dreifðrar velsældar. Það felur í sér útbreiðslu og samkeppni hugmynda og margháttaða nýbreytni, betri nýtingu mannauðs og náttúruauðlinda, betri lífskjör og aukna auðlegð samfélagsins. Um leið minnkar núningur innan þjóðfélaga og milli þeirra, lýðréttindi magnast og friðsæld eykst.

Hnattvæðing og pópúlismi

Víða um heim hefur hið almenna viðskiptaumhverfi tekið stakkaskiptum, fríverslunarsamningum hefur fjölgað verulega, og sérstakt ánægjuefni að áhersla á greiða leið fyrir ný fyrirtæki og sprotastarfsemi hefur skotið rótum um allar trissur. Þar hefur miklu skipt innviðauppbygging í regluverki, sem auðveldar viðskipti, eignarréttur er betur varinn, fjárfestingaumhverfi tryggara og opinber spilling í mikilli rénun.

Á hinn bóginn bendir rannsókn Legatum til þess að nokkurt bakslag hafi komið í stjórnarhætti, bæði í þróuðum hagkerfum og þeim, sem skemmra eru á veg komin. Þess sjá menn augljós merki meðal olígarka í austurvegi og vildarkapítalisma rómönsku Ameríku, en eins er ástæða til þess að hafa áhyggjur af sams konar þróun víðar vegna uppreisnar pópúlismans.

Því ekki óskylt er eindregin hneigð til verndarstefnu, sem víða gerði vart við sig í kjölfar fjármálakreppunnar, sem enn sér ekki fyllilega fyrir endann á. Hún reyndist raunar ekki jafndjúp eða víðtæk og margir óttuðust, en hefur víða tafið fyrir aukinni opnun og í stöku löndum hefur miðað aftur á bak með hömnlum á frjálsum viðskiptum og fjármagnsflutningum og verndarstefnu, sem ævinlega aftrar samkeppni og eykur sóun.

Rannsókn Legatum tók til 157 landa, en sem sjá má eru velflest Vesturlönd í góðum málum og nýmarkaðsríkin vel á veg komin. Aftur á móti er stór hluti Afríkuríkja enn nánast lokuð lönd og hið sama á við stóran hluta Miðausturlanda. Flest eiga þessi lönd það sameiginlegt, að þar er borgaralegt lýðræði og lagaumhverfi skammt á veg komið, þar sem ekki er beinlínis einræði og styrjaldarástand.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .