Þótt að Íslendingar séu blankari en þeir hafa vanist og blikur á lofti efnahagslíf heimsins er það ekki svo að tækifæri til auðsöfnunar séu færri en áður. Það er a.m.k. sú ályktun, sem draga má af milljarðamæringalista bandaríska tímaritsins Forbes, sem var birtur í fyrri viku.

Á þeim árlega lista, sem nú átti aldarfjórðungsafmæli, voru upp taldir 1.210 milljarðamæringar heimsins; menn sem rakað hafa að sér auðæfum, sem nema milljarði Bandaríkjadala eða meira, en milljarðurinn er nú jafnvirði um 114 milljarða íslenskra króna ef marka má gengisskráningu Seðlabanka Íslands.

Samanlögð auðlegð þessara milljarðamæringa nemur um 4.500 milljörðum dala, 4,5 billjón, en það er meira en verg landsframleiðsla Þýskalands. Þetta eru met á Forbes-listanum, bæði fjöldi auðkýfinganna og samanlagður auður þeirra.

Vægi nýríku þjóðanna eykst

Út úr listanum má þó lesa fleira en nákvæmlega hvaða fólk hefur mest á milli handanna í heiminum. Af honum má einnig ráða þróunina í gæftum heimsbyggðarinnar.

Bandaríkin eru enn sem fyrr með afgerandi flesta milljarðamæringa innan landamæra sinna, en meiri tíðindum sætir hvernig hin nýríku BRIC-lönd (Brasilía, Rússland, Indland og Kína) eru að ryðja sér rúms á listanum, því þaðan kemur fjórði hver auðkýfingur heimsins. Ekki síður er vert að horfa til þess að af þeim 214 nýju milljarðamæringum, sem bæst hafa á listann síðan í fyrra, er meirihlutinn — 108 ríkisbubbar — frá þessum fjórum löndum einum.

Auðmenn heimsins
Auðmenn heimsins
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana

Hlutur hinna nýríku þjóða er enn meiri ef menn vilja telja Kínverja óháð heimilisfestu, því kínverskir milljarðamæringar eru ófáir í Hong Kong og Taíwan, og þá má raunar finna miklu víðar, bæði í grónum kínverskum samfélögum í Malasíu, Singapore og víðar í Suðaustur-Asíu, þeir eru allnokkrir í Bandaríkjunum og slæðingur víða um heim.

Raunar má merkja vöxt í öllum hinum nýfrjálsu hagkerfum, en sérstaklega á það þó við um Suðaustur- Asíu, Kyrrahafshlutann, þar sem mönnum virðist liggja mikið á. Þaðan komu 332 milljarðamæringar og hefur þeim fjölgað um 98 frá síðasta ári þegar þeir voru 234, en þegar fjármálakreppan risti dýpst árið 2009 voru þeir 130 í þessum heimshluta.

Þarna að baki búa einkum undramiklar hækkanir á hlutafjármörkuðum þar eystra, en um ¾ hinna 105 nýju asísku milljarðamæringa eru með þorra eigna sinna í skráðum félögum. Þar af voru 25 félaganna skráð í fyrra. Hvort hér er um varanlega verðmætasköpun og auðsæld að ræða eða einkenni tryllingslegustu eignabólu heims á svo eftir að koma í ljós.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.